Yfirlýsing frá Öskra.

 Set þetta hér inn vegna þess að það er allrar athyggli vert að skoða hvernig unga fólkið okkar hefur sofnað á verðinum síðustu ár. Nýstofnuð samtök byltingarsinnaðra stútenta Öskra er eitt dæmi ánægjulegrar undantekningar. Lifi háskólapólitíkin.
 
 
 
ÖSKRA! YFIRLÝSING TVÖ
Stúdentar sofa á gröf nýfrjálshyggjunnar
Það er allt í volli. Fólk missir vinnuna, fer á hausinn, safnar skuldum. Auðmennirnir komnir í eilíft sólbað í Bermúdaþríhyrningnum og við náum aldrei aldrei til þeirra. Hegðun þingmanna og ráðherra hefur einkennst af sjúklegri veruleikafirringu. Í táknrænasta embætti lýðveldisins situr maður sem sleikt hefur rassinn á hverjum einasta auðmanni landsins og einum katörskum emír. Og þó er von; fólkið er að taka við sér. Eitthvað snappaði, loksins. Mótmælin við Alþingishúsið 20. janúar þættu varla tíðindi í löndum með raunverulega lýðræðishefð en þau gáfu mörgu íslensku hjarta von um betri tíma þar sem maðurinn kallar ráðamenn til ábyrgðar með því að taka sjálfur ábyrgð á eigin þegnrétti: það er ákvörðun að vera hluti af samfélagi, ekki meðfæddur eiginleiki.

hvar eru stúdentar? Einhvern tímann einhvers staðar hefði þótt sjálfsagt að háskólastúdentar marseruðu í broddi fylkingar í kröfunni um samfélagsbreytingar. Ekki á Íslandi 2009. Háskólakennarar hafa látið duglega í sér heyra en frá stúdentum – þarna unga og ferska fólkinu, þessu sem á að erfa landið – heyrist ekki múkk. Ekki frá Stúdentaráði Háskóla Íslands (eða misstum við af klausunni á fjórðu síðu Fréttablaðsins, „Stúdentaráð harmar efnahagshrunið“?) og ekki frá hreyfingunum tveimur sem standa vaktina í glímunni endalausu um fyrrnefnt ráð.

Í tilfelli Vöku skyldi reyndar engan undra, enda sérstakt baráttumál þeirrar hreyfingar að stúdentar séu ekki að skipta sér af því sem þeim kemur ekki við. Einhverjum gæti þótt titillinn Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta kaldhæðnislegur í því ljósi en hann passar raunar ágætlega við þann skilning sem hefur borið mjög á síðustu daga, að lýðræði þýði fyrst og fremst að þurfa bara að hugsa á fjögurra ára fresti og annað sé eiginlega dónaskapur gagnvart ráðamönnum.

Enn ömurlegra er að fylgjast með framgöngu, eða öllu heldur algjöru framgönguleysi, hreyfingarinnar sem fer með völdin í Stúdentaráði og gefur sig út fyrir að vera hinn róttæki og rammpólitíski andstæðingur Vöku. Eða eins og segir á heimasíðu Röskvu: „Stúdentaráð á að standa vörð um hagsmuni nemenda á öllum vígstöðvum, gagnvart einstaka kennurum, innan stjórnsýslu Háskólans, gagnvart stjórnvöldum og Alþingi, svo eitthvað sé nefnt. Undir stjórn Röskvu hefur Stúdentaráð einbeitt sér að því að auka vægi sitt í samfélaginu...“


Nú getur hver dæmt fyrir sig um vægi Stúdentaráðs í þessu mesta samfélagsumróti síðustu áratuga. Meðan eldar brunnu við Þjóðleikhúsið, gamlar konur börðu hækjum í ljósastaura og almenningur öskraði á stjórnvöld að hlusta á sig – þá stóð Röskva fyrir pöbbkvissi. Er þetta ekki grátbroslegt framferði vinstrisinnaðra háskólastúdenta meðan lýðurinn dansar á gröf nýfrjálshyggjunnar?

Þeir sem segjast pólitískir en hafa ekki nógu mikið bein í nefinu til að sameinast um eitthvað jafn lítið róttækt og að berja í potta fyrir utan Alþingishúsið hafa varla mikla burði í „alhliða hagsmunabaráttu“. Þá er heiðarlegra að gangast við eigin smæð og helga sig því að kýta við Vöku um ljósritunarvélar og samlokugrill.

ÖSKRA!
hreyfing byltingasinnaðra háskólanema
www.oskra.org / oskra@oskra.org

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Nýtt lýðræði takk ég er ekki hrifin af flutningi spillingarvalds milli flokka.

Vilborg Traustadóttir, 27.1.2009 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband